Athyglisvert hefur verið að fylgjast með því hvernig brugðizt hefur verið við skipun dómara við Héraðsdóm Norðurlands eystra og Héraðsdóm Austurlands.
Dómnefnd tekur sér vald
Árni Mathiesen hefur hvað eftir annað haldið því fram að dómnefndin sé að taka sér vald sem hún hafi ekki; mörg dæmi séu um að vikið hafi verið frá áliti nefndar og gildi þá einu máli hversu mikill munur sé á áliti hennar og niðurstöðu ráðherra. - Þetta er rangt.
Einsdæmi er að álit dómnefndar hafi verið hundsað jafn gróflega og gert hafi verið í þessu tilfelli. Ráðherra ber skylda til að rökstyðja þessa fullyrðingu sína með því að rekja hvernig staðið hafi verið að embættisskipan undangengin 16 ár.
Birgir Ármannsson kemur ráðherra til fulltingis og fullyrðir, að því hafi hvað eftir annað verið haldið fram að ráðherra væri bundinn af niðurstöðum nefndarinnar. Dómnefndin hefur ekki haldið þessu fram og ekki hef ég sagt þetta. Hverjir eru þeir sem hafa hvað eftir annað haldið þessu fram? Hið rétta er að svigrúm ráðherra er hins vegar bundið við efnisreglur stjórnsýsluréttarins sem í þessu samhengi taka mið af viðteknum sjónarmiðum sem dómnefndinni er sérstaklega ætlað að standa vörð um og ráðherra hundsar hér algerlega að því er virðist.
Andmælaréttur
Í 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 693/1999 segir að dómnefnd skuli senda dómsmálaráðherra umsögn sína ásamt gögnum þegar hún hefur lokið störfum. Þessu næst skal dómsmálaráðherra kynna hverjum umsækjanda álit dómnefndar um hann sjálfan og gefa honum kost á að gera skriflegar athugasemdir. Ef ráðherra berast slíkar athugasemdir skulu þær bornar undir dómnefndina. - Ráðherra hefur fundið umsögn dómnefndar flest til foráttu, gallar verið á umsögn hennar, hún verið ógagnsæ og lítt rökstudd, innra ósamræmis hafi gætt við mat á reynslu sem hin ýmsu störf gefa.
Nú hlýtur að mega spyrja: Gerði sá sem skipaður var athugasemdir? Ef ekki, hefur hann ekki talið neina ágalla á umsögn nefndarinnar og samþykkt hana í reynd. Hvers vegna er ráðherra að taka fram fyrir hendur honum? Hér stendur upp á ráðherra að gefa skýringar.
Rannsóknarskylda
Í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir þetta:
Stjórnvald [hér settur dómsmálaráðherra] skal sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því.
Ráðherra leggur áherzlu á sjálfstæði sitt til að taka ákvarðanir eftir eigin sannfæringu; honum beri skylda til að hafa skoðun á umsögn nefndarinnar og fara eftir eigin mati við skipun í embættið. - Hér er því ekki gaumur gefinn að valdi ráðherra eru þau takmörk sett að hann verður að gæta rannsóknarskyldu sinnar áður en ákvörðun er tekin. Þessi skylda er enn ríkari þegar haft er í huga að ráðherra gengur þvert gegn áliti lögskipaðrar nefndar. Ef marka má ummæli hans í Kastljóssþætti í sjónvarpinu að kvöldi 15. janúar sl. bendir ekkert til þess að hann hafi rækt þessa skyldu, þ.e. að hafa leitað skýringa hjá nefndinni, hvers vegna þeim sem embættið hlaut hafi verið skipað jafn neðarlega og gert var.
Málefnaleg sjónarmið
Ráðherra hefur haldið því fram að gætt hafi verið málefnalegra sjónarmiða og undir það tekur Birgir Ármannsson. Í rökstuðningi ráðherra fyrir skipun dómararans „að fjölbreytt reynsla Þorsteins og þekking, ekki sízt vegna starfa hans sem aðstoðarmaður Björns Bjarnasonar dóms- og kirkjumálaráðherra, um rúmlega 4 ára skeið geri hann hæfastan umsækjenda um embætti dómara".
Nú var megintilgangurinn með því að setja í lög nr. 92/1989 ákvæði um dómnefnd sem síðan voru sett í dómstólalög nr. 15/1998 að styrkja sjálfstæði dómstóla og auka traust almennings á því að dómarar séu óháðir handhöfum framkvæmdarvalds. Þetta var gert vegna dóms Mannréttindadómstóls Evrópu þar sem niðurstaðan var, að ekki væri nægilega greint milli dómsvalds og framkvæmdarvald í héraði. Auk þess átti nefndin að vera hvatning til lögfræðinga sem hygðu á dómsstörf að afla sér framhaldsmenntunar og leggja stund á fræðistörf á sviði lögfræði.
Skoðun ráðherra er sú, að starf pólitísks aðstoðarmanns dómsmálaráðherra eigi að vega þyngst við skipun í dómarastarf. Er það til þess fallið að styrkja sjálfstæði dómstóla og auka traust almennings á að dómarar séu óháðir framkvæmdarvaldinu?
Hér er álitaefnið hvert sé svigrúm ráðherra til að velja sér sjónarmið eftir því hvað hentar hverju sinni. Áherzla ráðherrans er nú á aðstoðarmennsku við dómsmálaráðherra, en hún hefur ekki alltaf dugað, í annan stað hefur lögmannsreynsla verið talin ráða úrslitum, en ekki kom hún nú að haldi og loks hefur prófritgerð í Evrópurétti verið talin mikilvægast innlegg, en nú skipta tvær meistaragráður í alþjóðalögum engu máli.
Ráðherraræði
Ítrekað heyrast raddir um að Alþingi hafi ekki þá stöðu gagnvart framkvæmdarvaldinu sem það eigi að hafa samkvæmt stjórnskipan landsins. Í stað þess að vera yfir framkvæmdarvaldinu sé það í reynd undir það gefið - jafnvel falla orð um að í reynd sé það lítið annað en afgreiðslustofnun fyrir ríkisstjórn. Og nú seilist framkvæmdarvaldið sífellt meira inn á svið dómsvaldsins. Með síðustu skipan hefur verið gengið lengra en áður eru fordæmi fyrir og málsvörn aldrei verið aumlegri; hún hefur einkennzt af illyrðum, útúrsnúningum og hálfsannindum, jafnvel beinum rangfærslum. Með því hafa þeir sjálfstæðismenn sem harðast hafa gengið fram í að verja gerðir ráðherra fellt á sig sterkan grun um að áhuginn sé meiri á eigin frama en á skaplegum stjórnarháttum og greiðasti vegurinn sé þá að hlýða valdboðum og verja vafasama gerninga.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli