föstudagur, 29. ágúst 2008

Skuldajöfnuður

Góð vísa er aldrei of oft kveðin:

Um er að ræða skuldajöfnuð þegar kröfur jafnast og ganga upp hver á móti annarri án þess að greiðsla fari fram. Verður niðurstaðan þá hin sama og báðar kröfurnar hefðu verið greiddar svo langt sem skuldajöfnuður nær. Almennar reglur kröfuréttar gilda um skuldajöfnuð opinberra krafna. Heimild til skuldajafnaðar getur annars vegar verið samkomulag aðila, og fer þá um skuldajöfnuð eftir því, en hins vegar getur venjulega hvor aðili um sig krafist þess að skuldajöfnuði sé beitt, ef eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:
1. kröfur séu milli sömu aðila,
2. þær séu samkynja, þ.e. sömu tegundar t.d. peningagreiðslur,
3. þær séu báðar gildar, þ.e. ekki fyrndar,
4. kröfurnar séu hæfar til að mætast hvað greiðslutíma snertir, m.o.ö. báðar í gjalddaga fallnar.

Við þetta má svo bæta að séu kröfur af sömu rót runnar (af sömu viðskiptum / atviki), annar aðilinn er þrotabú eða fyrirfram hefur verið samið um skuldajöfnuð í viðskiptum aðilanna, getur verið fyrir hendi víðtækari réttur til skuldajafnaðar, án þess að kröfur séu hæfar til að mætast eða samkynja.

Aðilum er alltaf heimilt að semja um skuldajöfnuð og þurfa skilyrðin hér að ofan þá ekki að vera uppfyllt.

Kröfur sem er andlag skuldajöfnuðar / -jöfnunar (e. set-off, þ. Aufrechnung, d. modregning, n. motrekning, s. kvittning) eru nefndar aðalkrafa og gagnkrafa (eða höfuðkrafa og mótkrafa).

Grípa má niður í enska skilgreiningu á hugtakinu, þar sem segir að skuldajöfnuður sé "where a claim is diminished (or presumably exinguished) by being set off agains another claim".

mánudagur, 14. júlí 2008

Gamla góða afnotagjald RÚV - þjónustugjald eða skattur?

Úr niðurstöðum nýfallins dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-7946/2007, sem höfðað var af greiðanda afnotagjalda gegn RÚV (feitletrun mín):

Fyrir liggur að afnotagjöld Ríkisútvarpsins hafa verið ákveðin sem föst krónutala án tillits til notkunar hvers viðtakanda þjónustunnar enda verður slíkri mælingu vart komið við að óbreyttu. Gjaldtakan hefur þannig ekki verið framkvæmd á grundvelli raunverulegrar notkunar eða veittrar þjónustu. Hins vegar hefur gjaldtakan verið bundin við þá sem hafa tæki og aðstöðu til að veita þjónustunni viðtöku, þ.e. að móttaka dagskrá útvarps eða sjónvarps. Þá er óumdeilt að afnotagjöld hafa hvorki nægt ein og sér, né hefur þeim hingað til verið ætlað að nægja, til fjármögnunar á kostnaði við rekstur stofnunarinnar. Hafa tekjur af birtingu auglýsinga í útvarpi og sjónvarpi, kostun o.fl. komið þar til viðbótar. Þá liggur og fyrir að afnotagjöldunum er ekki ætlað neitt annað hlutverk en að standa að hluta straum af kostnaði við rekstur Ríkisútvarpsins.

Að þessu virtu er það niðurstaða dómsins að slík tengsl séu á milli skyldu til að greiða afnotagjaldið og fjárhæðar þess annars vegar og hins vegar þeirrar þjónustu, sem Ríkisútvarpið veitir hverjum gjaldanda að afnotagjöldin teljist þjónustugjöld en ekki skattar.

Að því gættu verða 12. gr. laga nr. 122/2000 og ákvæði V til bráðabirgða í lögum nr. 6/2007 taldar fullnægjandi heimildir til innheimtu útvarpsgjalds stefnda og verður ekki fallist á það með stefnanda að 2. málsliður ákvæðisins, um að ráðherra staðfesti útvarpsgjald, að fengnum tillögum útvarpsstjóra, teljist eins og hér háttar of víðtækt framsal löggjafarvalds sem brjóti í bága við stjórnarskrá. Samkvæmt þessu og þar sem ekki er á því byggt af hálfu stefnanda að hún hafi átt rétt á afslætti á útvarpsgjöldunum, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 122/2000 um útvarpsgjald og innheimtu þess, eða að hún hafi greitt hærra gjald en aðrir gjaldendur, verður stefndi sýknaður af endurgreiðslukröfu stefnanda.

föstudagur, 30. maí 2008

Staðgreiðsluskylda vegna strípidansara

Bæjardómur Kaupmannahafnar, dómur í sameinuðum málum BS 44C-640/2007 - 44C-644/2007.

Í málinu var deilt um hvort tilteknir dansarar í næturklúbbum væru launþegar í þeim skilningi að halda bæri eftir staðgreiðslu af launum þeirra. Umræddir dansarar tróðu upp fjórum sinnum á kvöldi. Milli atriða gátu dansararnir selt kampavín, sem þeir drukku með viðskiptavinum næturklúbbanna.

Dómstóllinn taldi að laun dansaranna væru fyrir persónulega þjónustu, sbr. 1. mgr. 43. gr. tekjuskattslaga (kildeskatteloven). Einkum var litið til þess að bæði strípidansinn og kampavínssalan væru óaðskiljanlegur hluti af grunnstarfsemi náttklúbbana, að dansararnir störfuðu innan hefðbundins skipulags náttklúbbanna í tímabilum sem töldu frá einum mánuði og upp í nokkur ár, með föstum vinnutíma og vaktaskipulagi, auk þess að launin teldust í öllum meginatriðum nettótekjur.

Dómstóllinn taldi ekki að það leiddi af stjórnsýsluframkvæmd varðandi erlenda listamenn og “sólóista” að dansararnir gætu talist sjálfstæðir atvinnurekendur, auk þess sem ekkert annað lægi fyrir sem styddi að dansararnir skyldu teljast sjálfstæðir. Þess vegna var talið að næturklúbbunum hefði með réttu verið gert að halda eftir staðgreiðslu af launum dansaranna, sbr. 1. mgr. 46. gr. tekjuskattslaganna.

Sagen vedrørte, hvorvidt nogle danserinder på natklubber var at betragte som lønmodtagere med den virkning, at der skulle indeholdes A-skat af deres vederlag eller ej. De pågældende danserinder optrådte fire gange pr. aften. Mellem deres optrædender havde danserinderne mulighed for at sælge champagne, som de drak sammen med kunderne på natklubberne.

Retten fandt, at danserindernes vederlag var ydet for personligt arbejde i tjenesteforhold, jf. kildeskattelovens § 43, stk. 1. Retten lagde navnlig vægt på, at danserindernes arbejde såvel i form af striptease-dans som champagnesalg indgik som en integreret eller central del af natklubbernes ydelser, at danserinderne således i perioder på typisk ikke under en måned til adskillige år indgik i natklubbernes ordinære struktur med faste mødetider og vagtplaner, samt at lønnen i alt væsentligt måtte betegnes som nettoindkomst.

Retten fandt heller ikke, at der som følge af administrativ praksis vedrørende udenlandske artister og solister var grundlag for at anse danserinderne for selvstændig erhvervsdrivende, ligesom der heller ikke var dokumenteret nogen fast praksis for, at danserinderne af andre grunde skulle betragtes som selvstændige. Derfor var de sagsøgende natklubber med rette pålagt at indeholde A-skat af danserindernes honorar, jf. kildeskattelovens § 46, stk. 1.

þriðjudagur, 11. mars 2008

Framleiðsla á áfengi til eigin nota

Sá misskilningur er útbreiddur á Íslandi að heimilt sé að brugga áfengi "upp að vissu marki /magni" til einkaneyslu.

Sannleikurinn er sá að hvers konar bruggun, eiming og gerjun áfengra drykkja, m.a.s. átöppun þeirra, er leyfisskyld starfsemi skv. 6. gr. áfengislaga.

Lögreglan og ákæruvaldið eru óvægin við spörfuglaveiðarnar þegar framleiðsla áfengis til eigin neyslu er annars vegar, líkt og sjá má í leiðbeiningum ríkissaksóknara um sektarfjárhæðir:

2.3 Brot gegn áfengislögum nr. 75/1998 og lögreglusamþykktum

2.3.1 Framleiðsla, innflutningur, sala og veitingar áfengis:

1. og 2. mgr. 4. gr.:

* Framleiðsla áfengis til einkaneyslu eða sölu og sala áfengis.

Grunnsekt skal vera 50.000.


Fyrr í dag féll í Héraðsdómi Suðurlands dómur nr. S-37/2008, í máli erlends pars sem bjó hér á landi og hafði hafið bruggun á vodka. Þar segir:
Ákærðu, sem höfðu túlk, kváðust hafa verið í þeirri trú að heimilt væri að framleiða áfengi til einkaneyslu og að þau hefðu ekki verið að brjóta lög. Ákærðu hafa búið hér á landi um árabil. Skýringar ákærðu á vanþekkingu á íslenskum lögum er ekki trúverðug með hliðsjón af því magni sem um var að ræða og því að þau hafa búið á landinu í nokkur ár.

Ekki verður séð að magnið, rúmlega 140 lítrar af sterku áfengi (um 3 mánaða skammtur fyrir meðal-Pólverja), hafi komið til sérstakrar skoðunar í málinu. Dómarinn segir beinlínis að sá skilningur ákærðu að framleiðsla til einkaneyslu væri leyfilegur sé rangur og segir það ótrúverðugt að þau hafi verið haldin slíkri vanþekkingu á íslenskum lögum.

Þetta síðastnefnda er mjög fyndið með tilliti til þess að þessi skilningur er útbreiddur meðal fólks sem búið hefur á Íslandi í áratugi.

mánudagur, 3. mars 2008

Lögmæti "Tilkynningar- og greiðslugjalds"

Ekki vita margir af tilvist úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Enn færri vita eflaust af úrskurði hennar nr. 11/2005, frá 8. febrúar 2006, er varðaði lögmæti tilkynningar- og greiðslugjalda vegna afborgana af skuldabréfi.

Í stuttu máli sagði nefndin að heimilt væri fjármálafyrirtæki að leggja gjaldið á, enda væri kveðið á um það í samningi milli aðila. Nefndin taldi sig ekki bæra til þess að leggja mat á hvort fjárhæð gjaldsins væri óeðlileg og ósanngjörn.

Tveir af fimm nefndarmönnum (lögfræðingar, skipaðir af Neytendasamtökunum) skiluðu séráliti þar sem þeir töldu gjaldtökuna ganga gegn ákvæðum samningalaga.

Úrskurðinn er að finna í samantekt yfir úrskurði nefndarinnar 2005, bls. 44, en hann er svohljóðandi:

----

Ár 2006, miðvikudaginn 8. febrúar, er fundur haldinn í Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki.

Mætt eru: Guðjón Ólafur Jónsson, formaður, Geir Arnar Marelsson, Grétar Grétarsson, Íris Ösp Ingjaldsdóttir og Sölvi Sölvason.

Fyrir er tekið mál nr. 11/2005:
M.
gegn
fjármálafyrirtækinu F
og kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r:

I.
Málsmeðferð.
Málsaðilar eru M, hér eftir nefnt sóknaraðili, annars vegar, og fjármálafyrirtækinu
F, hins vegar, hér eftir nefndur varnaraðili.
Málið barst úrskurðarnefnd 26. september 2005 með kvörtun sóknaraðila, dagsettri sama dag. Með bréfi nefndar-innar, dagsettu 26. september 2005, var kvörtunin send varnaraðila og honum gefinn kostur á að tjá sig um hana og skýra sjónarmið sín.
Svör varnaraðila bárust með bréfi hans, dagsettu 17. október 2005. Bréfið var sent sóknaraðila með bréfi nefndarinnar, dagsettu 19. október 2005, og honum gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum. Athugasemdir bárust með bréfi sóknaraðila, dagsettu 25. október 2005.
Málið var tekið fyrir á fundum nefndarinnar 21. nóvember 2005, 20. desember
2005, 3. janúar 2006 og 8. febrúar 2006.

II.
Málsatvik.
Hinn 29. mars 1999 gaf M, út skuldabréf til varnaraðila að fjárhæð kr. 2.200.000. Skyldi bréfast endurgreiðast á 20 árum með 240 mánaðarlegum afborgunum. Í skuldabréfinu var m.a. mælt fyrir um að skuldari skyldi greiða kostnað af innheimtu hverrar greiðslu í samræmi við gjaldskrá varnaraðila hverju sinni. Með yfirlýsingu, dagsettri 25. maí 2005 tók sóknaraðili að sér að greiða skuldabréfið og samþykkti varnaraðila yfirtöku skuldarinnar. Skyldu öll ákvæði sóknaraðila gilda óbreytt gagnvart sóknaraðila. Yfirlýsingarinnar var getið á frumriti skuldabréfsins.Hinn 28. mars 2000 gaf M, út annað skuldabréf til varnaraðila að fjárhæð kr. 3.000.000. Skyldi bréfast einnig endurgreiðast á 20 árum með 240 mánaðarlegum afborgunum. Í skuldabréfinu var m.a. mælt fyrir um að skuldara bæri á hverjum gjalddaga að greiða kostnað af innheimtu hverrar greiðslu í samræmi við gjaldskrá varnaraðila hverju sinni. Með annarri
yfirlýsingu, dagsettri 25. maí 2005 tók sóknaraðili að sér að greiða skuldabréfið og samþykkti varnaraðila yfirtöku skuldarinnar. Skyldu öll ákvæði sóknaraðila gilda óbreytt gagnvart sóknaraðila. Yfirlýsingarinnar var getið á frumriti skuldabréfsins.
Með bréfi til varnaraðila, dagsettu 28. ágúst 2005, krafðist sóknaraðili þess að greiðslu- og tilkynningargjöld af nefndum skuldabréfum yrðu felld niður og þegar greidd gjöld endurgreidd ásamt dráttarvöxtum. Varnaraðili mun ekki hafa svarað erindinu. Sóknaraðili greiðir nú kr. 190 í tilkynningargjald við hverja afborgun af bréfi nr. 021013 og kr. 490 af hverri afborgun af bréfi nr. 021459.Mál þetta barst úrskurðarnefndinni með kvörtun, dagsettri 26. september 2005.

III.
Umkvörtunarefni.
Sóknaraðili kvartar undan seðilgjöldum og sambærilegum kostnaði við greiðslu afborgana af ofangreindu skuldabréfi. Kveðst hann ávallt greiða afborganir og vexti á starfstöð varnaraðila en sé þrátt fyrir það krafinn um greiðslu svokallaðs tilkynningar- og greiðslugjalds til viðbótar afborgunum, vöxtum og vísitöluálagi. Sóknaraðili vísar til ákvæða laga um neytendakaup nr. 48, 2003, sérstaklega 39. gr. um að kaupverð skuli greitt í atvinnustöðu seljanda. Þá sé það grunnregla kröfuréttar að það sé á ábyrgð seljanda að gefa út reikning og senda til neytanda. Geti hann ekki krafist viðbótarþóknunar fyrir það.

IV.
Athugasemdir varnaraðila.
Varnaraðili kveður greiðsluseðil lið í innheimtu skulda en sé ekki reikningur. Séu seðilgjöld til þess að mæta kostnaði við útgáfu greiðsluseðils, sem sé liður í innheimtu kröfu, og hluti þess kostnaðar sem á greiðsluseðli sé einu nafni nefnt tilkynningar- og greiðslugjald. Hafi sóknaraðili samþykkt að greiða þennan kostnað þegar til lántökunnar var stofnað. Varnaraðili telur ákvæði laga um neytendakaup nr. 48, 2003 ekki eiga við í málinu.

V.
Niðurstaða.
Í 4. tölul. fyrrgreindra skuldabréfa er staðlað ákvæði þess efnis að sóknaraðili greiði allan kostnað við innheimtu skuldarinnar samkvæmt gjaldskrá varnaraðila hverju sinni. Hefur sóknaraðili þar með skuldbundið sig til að inna umræddan kostnað af hendi. Samkvæmt gildandi gjaldskrá varnaraðila innheimtir hann við greiðslu af skuldabréfum tilkynningar- og greiðslugjald við hverja greiðslu hjá gjaldkera kr. 490 en kr. 190 við hverja skuldfærslu af reikningi. Að mati úrskurðarnefndarinnar samræmist gjaldtaka þessi ákvæðum skuldabréfsins þótt orðalag þess gæti verið skýrara. Hefur ekki verið sýnt fram á að fjárhæð þóknunarinnar sé óeðlileg eða ósanngjörn, en úrskurðarnefndin hefur heldur engar forsendur til að meta hvort svo sé.
Ákvæði laga um neytendakaup, nr. 48, 2003, eiga ekki samkvæmt orðum sínum við um afborganir af skuldabréfum, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna, og verður meintur réttur sóknaraðila heldur ekki byggður á meginreglum þeirra. Þess utan öðluðust lögin ekki gildi fyrr en 1. júní 2003 eða löngu eftir útgáfu umræddra skuldabréfa.
Með vísan til framanritaðs verður ekki hjá því komið að hafna öllum kröfum sóknaraðila á hendur varnaraðila.

Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kröfum sóknaraðila, M, á hendur varnaraðila, fjármálafyrirtækinu F, er hafnað.

Reykjavík, 8. febrúar 2006.

Guðjón Ólafur Jónsson
Grétar Grétarsson Sölvi Sölvason

Sérálit
Geirs Arnars Marelssonar og Írisar Aspar Ingjaldsdóttur
Í máli því sem hér er til meðferðar hjá nefndinni gerir sóknaraðili þá kröfu að seðilgjöld verði felld niður og úrskurðuð ólögmæt þegar skuldari sér sjálfur um að koma greiðslu til starfsstöðvar seljanda. Vísar sóknaraðili þessu til stuðnings til ákvæða laga um neytendakaup nr. 48, 2003 en í 3. mgr. 37. gr. þeirra laga, er sérstaklega tekið fram að seljandi geti ekki til viðbótar kaupverði krafist þóknunar úr hendi kaupanda fyrir að gefa út og senda reikning.
Varnaraðili andmælir röksemdum sóknaraðila með því að greiðsluseðill sé ekki reikningur sendur gjaldanda heldur liður í innheimtu skuldar. Varnaraðili getur þess hinsvegar ekki, né sýnir fram á að sóknaraðili fái sendan reikning í öðru formi.
Sóknaraðili lagði fram greiðsluseðla vegna afborgana í september 2005 af báðum skuldabréfunum. Greiðsluseðlarnir eru gefnir út af varnaraðila og sést á öðrum þeirra að tekið er svokallað “tilkynningar - og greiðslugjald” að fjárhæð kr. 490 en sama gjald er kr. 190 á greiðsluseðlinum vegna hins skuldabréfsins. Í greinargerð varnaraðila eru tilkynningar og greiðslugjöld skilgreind nánar, en þar segir: “seðilgjöld eru ekki gjaldtaka sem varðar útgáfu reiknings heldur gjaldtaka til þess að mæta kostnaði við útgáfu greiðsluseðils, sem er liður í innheimtu kröfu, og er hluti þess kostnaðar sem á greiðsluseðlinum er nefnt einunafni “tilkynningar - og greiðslugjald”.
Í gjaldskrá varnaraðila er fjallað um “tilkynningar - og greiðslugjöld” af skuldabréfum. Tilkynningar og greiðslugjöld sundurliðast svo:
“2.2.8. Tilkynningar og greiðslugjald.
2.2.8.1 Kostnaður við hverja greiðslu hjá gjaldkera 490. kr.
2.2.8.2 Kostnaður við hverja greiðslu án útprentunar. 415. kr.
2.2.8.3 Kostnaður við hverja skuldfærslu af reikningi. 190. kr.”
Í greinargerð varnaraðila dagsettri 17. október 2005 vísar varnaraðili til þess að sóknaraðili hafi samþykkt að greiða umkvörtuð gjöld þegar stofnað var til lántökunnar. Sóknaraðili hafi undirritað tvö veðskuldabréf þar sem eftirfarandi komi fram:
Skuldara ber á hverjum gjalddaga að greiða kostnað af innheimtu hverrar greiðslu í samræmi við gjaldskrá [varnaraðila] á hverjum tíma.
Í bréfi sóknaraðila til nefndarinnar, dagsettu 31. október 2005, er vísað til þess að
skilmálar varnaraðila séu takmarkandi og íþyngjandi gagnvart lántakanda. Lántakendur
eigi sér ekki annara kosta völ en að samþykkja óeðlilega og ólögmæta skilmála við lántöku. Sóknaraðili bendir á að slíkir skilmálar þurfi ekki að vera bindandi fyrir aðila og vísar því til stuðnings til 36. gr. samningalaga nr. 7, 1936.
Ákvæði skuldabréfsins er hluti af stöðluðum samningsskilmála sem saminn er einhliða af varnaraðila. Það er mat minnihluta nefndarinnar að ákvæðið sé mjög opið þar sem vísað er til gjaldskrár varnaraðila eins og hún er á hverjum tíma. Þetta veitir varnaraðila opna heimild til að hækka gjaldskrá án þess að takmarkanir séu á því. Kostnaðurinn er ekki sundurgreindur í gjaldskránni og enginn möguleiki fyrir sóknaraðila að meta hvort um raunverulegan kostnað er að ræða hjá varnaraðila. Telur minnihluti nefndarinnar þessa framsetningu ósanngjarna og andstæða góðum viðskiptaháttum.
Meginregla kröfuréttar er, bæði í kaupum og vegna annarra viðskipta, að greiðslustaður peningagreiðslu skuli vera hjá kröfuhafa. Í viðvarandi viðskiptum hafa málin hins vegar þróast þannig að fáir greiða mánaðarlega reikninga á atvinnustöð kröfuhafa heldur nota til þess aðrar leiðir, t.d. fá senda greiðsluseðla eða greiða í gegnum heimabanka. Þessu fylgir kostnaður sem kröfuhafinn innheimtir hjá skuldaranum. Engu að síður hlýtur sá réttur skuldarans enn að vera fyrir hendi að greiða á atvinnustöð kröfuhafa án þess að verða fyrir kostnaði af því enda hafa meginreglur kröfuréttar ekki breyst hvað þetta varðar.
Í málinu sem hér er til umræðu er sóknaraðila veitt afar takmarkað val um með hvaða hætti hann greiðir afborganir sínar af skuldabréfinu. Ljóst er að mun fleiri og ódýrari valkostir eru í stöðunni til að innheimta skuld en að senda viðskiptavinum greiðsluseðla eða skuldfæra beint af reikningi. Sem dæmi um aðra kosti sem eru tæknilega mögulegir til að greiða skuld, auk þess að greiða á atvinnustöð kröfuhafa, má nefna að senda má viðskiptavini reikning með bankanúmeri sem viðskiptavinurinn getur lagt greiðsluna inn á. Einnig er hægt að fá reikning upp í heimabankanum og greiða hann þar án þess að fá greiðsluseðil sendan. Þá þekkist að viðskiptavini sé veittur aðgangur að lokaðri síðu þar sem hann getur skoðað reikninga sína og greitt þá án þess að tengsl séu við Reiknistofu bankanna.
Sóknaraðili heldur því fram að hann hafi greitt afborganir skuldabréfanna á starfsstöð varnaraðila og hefur því ekki verið mótmælt. Það verður því að teljast sannað að sóknaraðili hafi gert allt sem í hans valdi stendur til að forðast að valda sérstökum kostnaði vegna innheimtu. Það að greiða á atvinnustöð varnaraðila er þó ekki valkostur sem varnaraðili býður upp á þar sem samt sem áður er tekið tilkynningar- og greiðslugjald fyrir greiðsluna á sama hátt og hefði sóknaraðili notað greiðsluseðil og skuldfærslu til að greiða afborganir af skuldabréfunum. Þetta verður að telja að stangist á við meginreglur kröfuréttar.
Í lögum um neytendakaup er eins og áður segir mælt fyrir um að seljandi geti ekki til viðbótar kaupverðinu krafist þóknunar fyrir að gefa út og senda reikning. Fallist er á það með meirihluta nefndarinnar að það álitaefni sem hér er til umræðu falli ekki undir lög um neytendakaup. Engu að síður veitir umrædd grein laganna og skýringar með henni mikilvæga vísbendingu um vilja löggjafans. Í skýringum með greininni í frumvarpi til neytendakaupalaga segir m.a.: “Reglan byggist á því að seljandinn eigi ekki að geta krafið neytandann um hærri fjárhæð en sem nemur umsömdu verði söluhlutarins, en eðlilegra þykir að seljandinn beri þennan kostnað fremur en neytandinn. Ákvæðið fjallar ekki um annan kostnað en kostnað við útgáfu og sendingu reiknings, en annar kostnaður eða viðbót við kaupverð getur t.d. verið tengdur sendingu hlutar og verður hans heldur ekki krafist til viðbótar kaupverðinu, nema slíkt eigi sér stoð í samningi eða venju.”
Löggjafinn metur það því svo að í neytendakaupum standi það seljandanum nær að bera kostnaðinn af sendingu reiknings. Minnihluti nefndarinnar telur að eðli málsins leiði til sömu niðurstöðu að því er varðar afborganir af lánum. Um er að ræða viðvarandi viðskiptasamband og er kröfuhafi almennt í betri aðstöðu til að vita hvað næsta afborgun skuli vera há. Eðlilegt er að kröfuhafi komi þeim upplýsingum til skuldara mánaðarlega með því að senda honum reikning án þess að taka gjald fyrir það. Þá telur minnihluti nefndarinnar eðlilegt að upplýsingar um bankareikning fylgi sem nota má til að greiða afborgunina inn á enda vandséð að það valdi kostnaði hjá varnaraðila sem réttlætanlegt er að rukka sérstaklega fyrir.
Í 36. gr. laga nr. 7, 1936 segir: “Samningi má víkja til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig” Minnihluta nefndarinnar þykir sú framsetning varnaraðila á umræddu
tilkynningar- og greiðslugjaldi að veita sóknaraðila ekki val um að greiða án kostnaðar auk þess að vísa í gjaldskrá sína í einhliða sömdum skilmála vera bersýnilega ósanngjarna og andstæða góðum viðskiptaháttum. Telur minnihluti nefndarinnar að ekki verði hjá því komist að víkja ákvæðinu í skuldabréfinu til hliðar í heild sinni með vísan til 36. gr. samningalaga nr. 7, 1936. Fellst minnihluti nefndarinnar á kröfur sóknaraðila og skal varnaraðili endurgreiða sóknaraðila þegar greidd tilkynningar- og greiðslugjöld.

Reykjavík, 8. febrúar 2006

Geir Arnar Marelsson         Íris Ösp Ingjaldsdóttir

föstudagur, 29. febrúar 2008

Dönsk skattyfirvöld heimila Stoðum yfirfærslu samkvæmt íslenskum reglum

Í fyrradag heimiluðu dönsk skattyfirvöld Fasteingarfélaginu Stoðum að færa hlutabréfaeign í móðurfélaginu Fasteignarfélaginu Stoðum yfir í dótturfélagið Stoðir Fasteignir.

Talið var að tilgangurinn væri ekki undanskot frá skatti eða skattsniðganga:
SKAT finder det på baggrund af sagens oplysninger sandsynliggjort, at hovedformålet med omstruktureringen ikke er skatteunddragelse eller -undgåelse. Endvidere ses de objektive betingelser samt grenkravet for grenspaltningen at være opfyldt.

mánudagur, 25. febrúar 2008

Elsta trixið í bókinni

21. febrúar sl. var í Héraðsdómi Suðurlands kveðinn upp dómur í máli nr. S-486/2007.

Drengur nokkur, með óþekkt heimilisfang í Lúxemborg en til dvalar á Flúðum, velti bíl sínum á Hlöðuvallavegi við Laugarvatnsveg. "Þegar lögreglan kom á vettvang hefði ökumaðurinn staðið við bifreiðina og verið að drekka bjór."Klassískt.

Blóðsýni sem tekið var úr ökumanni eftir slysið sýndi rúmlega tveggja prómilla alkohólmagn, sem er barasta ágætt. Vitni báru því við að þeir hefðu séð "ákærða skríða út úr bifreiðinni" þegar komið var á vettvang og hann hefði "hegðað sér eins og ölvaður maður".

Þá er nefnt í forsendum dómsins að "[s]amkvæmt matsgerð Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræðum við Háskóla Íslands var etanólstyrkur í blóði ákærða fallandi þegar blóð- og þvagsýni voru tekin úr honum um einni og hálfri klukkustund eftir að akstri lauk. Svo hefði ekki verið hefði mikil drykkja átt sér stað eftir að akstri lauk." Komið hafði fram fyrir dómi að "það sé alls ekki hægt að ná þessum styrk í þvagi [sem mælt var hjá ákærða] á einum og hálfum klukkutíma".

Fékk ákærði tveggja ára sviptingu ökuréttinda fyrir brotið.

miðvikudagur, 20. febrúar 2008

Frádráttur á móti námsstyrk

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 314/2007 – Opinber gjöld - frádráttur á móti námsstyrk

Í innsendri leiðréttingarbeiðni á skattframtali kvaðst kærandi hafa gleymt að geta um greidd skólagjöld í greinargerð sem fylgdi hefði skattframtalinu um frádrátt á móti styrk til náms, rannsóknar- eða vísindastarfa. Í úrskurði skattstjóra um málið tók hann fram að styrkir sem málið snérist um væru skattskyldir skv. 2. tölul. A-liðar 7. gr. TSKL. Með leiðréttingarbeiðni sinni hefði kærandi óskað eftir frádrætti á móti styrkjum vegna skólagjalda við Exeterháskóla. Skattstjóri taldi að kostnaður vegna náms sem lyki með prófgráðu væri persónulegur kostnaður sem kæmi ekki til frádráttar.

Yfirskattanefnd féllst á það með kæranda að henni beri frádráttur beins kostnaðar skv. 2. mgr. 30. gr. TSKL frá umræddum styrkjum, sbr. m.a. úrskurðaframkvæmd, enda hafi verið sýnt fram á fullnægjandi gögn því til sönnunar. Var því fallist á frádrátt sem nemur styrkfjárhæðinni.

---

Eftirfarandi leiðbeiningar er að finna á vef RSK:

2.6.4

Frádráttur á móti náms- rannsóknar- og vísindastyrkjum

Reitur 149:
Frádráttur á móti náms-, rannsóknar- og vísindastyrkjum. Ef gerð er krafa um frádrátt vegna beins kostnaðar á móti náms-, rannsóknar- eða vísindastyrkjum, skal færa frádráttinn í þennan reit. Frádráttur þessi getur ekki orðið hærri en styrkur sem talinn er til tekna í reit 131 í kafla 2.3. Heimilt er að draga frá kostnað á móti styrknum, þó ekki vexti af skuldum, afföll, gengistöp og fyrningu eigna.

Gera skal sundurliðaða grein fyrir þessum kostnaði á sérstöku yfirliti sem fylgja skal framtalinu (sérstakt undirblað á vefframtali sem opnast þegar smellt er á Færa frádrátt). Heildarkostnaður skv. yfirlitinu færist síðan í reit 149. Ekki er heimilt að draga kaupverð tækja, s.s. tölva og tölvubúnaðar, frá styrkjum. Ef um atvinnurekstur er að ræða skal gera grein fyrir tekjum og frádrætti á RSK 4.10 eða RSK 4.11 ef rekstrartekjur eru hærri en 500.000 kr.

mánudagur, 11. febrúar 2008

Þriðja blaðagrein Líndals


Sigurður svarar vel fyrir sig varðandi Stóra-Þorsteinsmálið:

---

Vísir, 09. feb. 2008 06:00

Dómsmálaráðherra túlkar texta

Björn Bjarnason hefur ítrekað sagt að ég hafi skrifað mig frá því að fjalla um skipan héraðsdómara á Norður- og Austurlandi með því að líkja þeim embættisgjörningi setts dómsmálaráðherra við stjórnarhætti nazista - með slíku gerðu menn sig einfaldlega marklausa og þannig væri komið fyrir mér í þessu máli.

Hver skyldi nú hafa verið þessi samlíking og hvert skyldi hafa verið tilefnið?

Í leiðara Morgunblaðsins 10. janúar 2008 var því andmælt að tilvist dómnefndarinnar samkvæmt 12. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla setti veitingarvaldinu einhver takmörk. Þetta sé einfaldlega rangt, enda komi það hvergi fram í neinum lagatexta (leturbr.: S.L:), nefndin sé að draga til sín vald sem hún hafi ekki.

Við þessi ummæli gerði ég eftirfarandi athugasemd: „Hér skín; í taumlausa vildarhyggju þar sem einungis er áskilið að lög séu sett með formlega réttum hætti og þeim beri að framfygja með valdi hvert svo sem efni þeirra er. Valdboðið er sett í öndvegi; annað látið víkja. Með þetta að leiðarljósi er alræði og geðþótta opnuð leið og eru nær­tækust dæmin frá Þýzkalandi eftir 1930." Hér er lagatextinn allsráðandi, rétt eins og aðrar réttarheimildir séu ekki til.

Þess er nú fyrst að geta að sú vildarhyggja (pósitífismi), að lög séu tæki valdsins hefur löngum sætt gagnrýni lögspekinga, siðspekinga og heimspekinga allt frá miðöldum, en hún sótti á og náði fullum tökum á mönnum á einveldisöld. Reyndar var hún mjög áhrifamikil allt fram yfir miðja 20. öld, enda trúðu menn að fulltrúalýðræðið og réttindaákvæði í stjórnarskrám myndu reisa henni skorður. Þetta reyndist ekki standast svo sem dæmin frá Þýzkalandi sýna - valdataka nazista - og viðhorf réttarheimspekinga eða lögspekinga breyttust, þannig að þeir tóku að gefa meiri gaum en áður grunngildum sem búa að baki réttarskipuninni.

Það birtist síðan í stjórnskipunarlögum og alþjóðasáttmálum með vaxandi áherzlu á mannréttindaákvæði, í almennri löggjöf, ekki sízt á sviði réttarfars og stjórnsýsluréttar og í tíðari skírskotun dómstóla til óskráðra meginreglna laga. Til viðbótar hefur verið lögð vaxandi áherzla en áður að skipta valdi milli stofnana til gagnkvæms aðhalds og þá ekki sízt að styrkja stöðu dómsvaldsins. Allt miðar þetta að því að takmarka vald, enda hefur reynslan sýnt að fulltrúalýðræðið gegni ekki því hlutverki sem skyldi.

Hér á landi hefur verið leitazt við að koma til móts við þá þróun sem lýst hefur verið með stjórnsýslulögum 1993 og stofnun embættis umboðsmanns Alþingis 1987. Með svokölluðum aðskilnaðarlögum 1989 var leitazt við að styrkja sjálfstæði dómsvaldsins og auðvelda dómsmálaráðherra að taka faglega ákvörðun, þannig að hann hefði óháða dómnefnd sér til fulltingis. Þetta er síðan ítrekað í núgildandi dómstólalögunum frá 1998.

Túlkunarhagræðing

Með grein minni 15. janúar sl. freistaði ég að útskýra þessa viðhorfsbreytingu sem meðal annars hefur sett mark sitt á lagasetningu og lagaframkvæmd hér á landi og þar var þróunin í Þýzkalandi nefnd sem einn áhrifaþáttur þeirra umskipta. Þessi breyting hefur greinilega farið framhjá Birni; hann trúir eins og einvaldshöfðingi á valdið og lögin sem tæki þess og samræmi við það er embættisskipan setts dómsmálaráðherra bæði lögleg og siðleg. En því til réttlætingar verður hann að slíta texta úr samhengi og fá þá niðurstöðu að ég hafi líkt dómaraskipan setts dómsmálaráðherra við stjórnarhætti nazista.

Ákvörðun getur verið gagnstæð lögum og góðum siðum, en með því er henni ekki jafnað við ógnarverk nazista. Og til þess að hnykkja á órum sínum vitnar Björn til þingmanns á Evrópuþinginu Daniels Hannans að nafni sem líkti fundarstjórn þingforseta sem vildi takmarka málþóf hans við stjórnlagarof nazista 1933, og var vikið úr þingflokki sínum.

Nú er rétt að menn íhugi hvort það sé sambærilegt að beina slíkum fjölmælum beint til þingforseta sem er að gæta þingskapa, eða nefna þróun í Þýzkalandi eftir 1930 sem einn meðal fleiri orsakaþátta í þeirri viðhorfsbreytingu að réttarheimspekingar hurfu frá gallhörðum vildarrétti að siðferðilegum grunngildum réttarskipunarinnar. Þetta ræða þýzkir lögfræðingar opinskátt án þess að skrifa sig út úr umræðunni eða gera sig marklausa.

Hér er gott dæmi um hvernig maður sem skortir rök reynir að víkja sér undan orðræðu. Jafnframt varpar þetta nokkru ljósi á stjórnmálaumræðu á Íslandi.

Höfundur er lagaprófessor.


---

Fjallað er um málið á Eyjunni.

Pólitískir andstæðingar

Úr Silfri Egils 3. febrúar 2007, tekið af dv.is:

"Egill: Ég ætla að klára þetta. Ég verð að nefna eitt mál. Það er skipun dómara í Norðurlandi eystra. Telurðu að þetta mál hafi skaða flokkinn, Sjálfstæðisflokkinn?

Björn Bjarnason: Mér sýnist nú ekki í sjálfu sér kannanir sýna það. Ég tel í grunninn sé þetta mál deila á milli framkvæmdavaldsins og dómsvaldsins. Í grunninn er það þannig að dómararnir vilja ráða því hverjir eru dómarar og þeir sætta sig illa við að ráðherrar komi að því og þeir eru að finna alls konar formúlur til þess að binda hendur ráðherrans. Stjórnskipunin bara gerir ekki ráð fyrir því. Stjórnskipunin gerir ráð fyrir að þeir geti sagt álit sitt um hæfi en það er ráðherrans að taka ákvörðun og ráðherrann getur haft aðrar upplýsingar heldur en þessi dómnefnd hefur og þegar hann fer inn í ráðuneytið og skoðar málið þá getur hann komið að málinu með öðrum hætti, haft aðrar upplýsingar heldur en nefndin sem segir álit sitt og þess vegna haft mjög skýr rök fyrir sinni niðurstöðu.

Egill: Held ég að mönnum beri saman um að ráðherrann hafi mátt gera þetta en það er spurning síðan hvort að það hafi verið siðlegur gjörningur ...?

Björn Bjarnason: Jú auðvitað var þetta siðlegt og löglegt en menn geta deilt um þetta pólitískt og það hefur verið reynt að deila um þetta pólitískt í einn mánuð. Mig minnir að þetta hafi gerst, hvað 20. desember nú er kominn 3. febrúar.

Egill: Menn eru ekki alveg búnir að gleyma þessu strax.

Björn Bjarnason: 3. febrúar og reynt að halda þessu vakandi allan janúarmánuð í von um að draga úr fylgi Sjálfstæðisflokksins örugglega því að það er ekki ...

Egill: Er þetta bara notað, eitthvað sem er notað til þess að koma höggi á ykkur?

Björn Bjarnason: Mér sýnist að pólitískir andstæðingar okkar hafi gert það. Hvað gerist þegar skoðanakönnun kemur um fylgi flokkanna? Sjálfstæðisflokkurinn eykur fylgi sitt. Þannig að ef við ætlum að ...

Egill: Pétur Hafstein og Sigurður Líndal eru ekki pólitískir andstæðingar Sjálfstæðisflokksins."


Algerlega óþolandi þegar fólk þráast við að gleyma ekki valdníðslu stjórnmálamanna í heilu vikurnar. Það er ekki trúverðugt þegar lögfræðingur eins og Björn túlkar gagnrýni á taumlausan vildarrétt stjórnvalda og líkir við lög 3. ríkisins sem samlíkingu við grimmdarverk nasista. Samlíkinguna er að finna í flestum heimspekiritum þar sem minnst er á kosti og galla vildarréttarkenninga.

föstudagur, 25. janúar 2008

Sigurður leiðréttir rangfærslur - útskýrir vandaða stjórnarhætti

Sigurður Líndal lagaprófessor emeritus á þrusugóða grein í Fbl. í dag:


Vísir, 25. jan. 2008 05:00

Um vandaða stjórnarhætti

mynd

Athyglisvert hefur verið að fylgjast með því hvernig brugðizt hefur verið við skipun dómara við Héraðsdóm Norðurlands eystra og Héraðsdóm Austurlands.

Dómnefnd tekur sér vald

Árni Mathiesen hefur hvað eftir annað haldið því fram að dómnefndin sé að taka sér vald sem hún hafi ekki; mörg dæmi séu um að vikið hafi verið frá áliti nefndar og gildi þá einu máli hversu mikill munur sé á áliti hennar og niðurstöðu ráðherra. - Þetta er rangt.

Einsdæmi er að álit dómnefndar hafi verið hundsað jafn gróflega og gert hafi verið í þessu tilfelli. Ráðherra ber skylda til að rökstyðja þessa fullyrðingu sína með því að rekja hvernig staðið hafi verið að embættisskipan undangengin 16 ár.

Birgir Ármannsson kemur ráðherra til fulltingis og fullyrðir, að því hafi hvað eftir annað verið haldið fram að ráðherra væri bundinn af niðurstöðum nefndarinnar. Dómnefndin hefur ekki haldið þessu fram og ekki hef ég sagt þetta. Hverjir eru þeir sem hafa hvað eftir annað haldið þessu fram? Hið rétta er að svigrúm ráðherra er hins vegar bundið við efnisreglur stjórnsýsluréttarins sem í þessu samhengi taka mið af viðteknum sjónarmiðum sem dómnefndinni er sérstaklega ætlað að standa vörð um og ráðherra hundsar hér algerlega að því er virðist.

Andmælaréttur

Í 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 693/1999 segir að dómnefnd skuli senda dómsmálaráðherra umsögn sína ásamt gögnum þegar hún hefur lokið störfum. Þessu næst skal dómsmálaráðherra kynna hverjum umsækjanda álit dómnefndar um hann sjálfan og gefa honum kost á að gera skriflegar athugasemdir. Ef ráðherra berast slíkar athugasemdir skulu þær bornar undir dómnefndina. - Ráðherra hefur fundið umsögn dómnefndar flest til foráttu, gallar verið á umsögn hennar, hún verið ógagnsæ og lítt rökstudd, innra ósamræmis hafi gætt við mat á reynslu sem hin ýmsu störf gefa.

Nú hlýtur að mega spyrja: Gerði sá sem skipaður var athugasemdir? Ef ekki, hefur hann ekki talið neina ágalla á umsögn nefndarinnar og samþykkt hana í reynd. Hvers vegna er ráðherra að taka fram fyrir hendur honum? Hér stendur upp á ráðherra að gefa skýringar.

Rannsóknarskylda

Í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir þetta:
Stjórnvald [hér settur dómsmálaráðherra] skal sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því.

Ráðherra leggur áherzlu á sjálfstæði sitt til að taka ákvarðanir eftir eigin sannfæringu; honum beri skylda til að hafa skoðun á umsögn nefndarinnar og fara eftir eigin mati við skipun í embættið. - Hér er því ekki gaumur gefinn að valdi ráðherra eru þau takmörk sett að hann verður að gæta rannsóknarskyldu sinnar áður en ákvörðun er tekin. Þessi skylda er enn ríkari þegar haft er í huga að ráðherra gengur þvert gegn áliti lögskipaðrar nefndar. Ef marka má ummæli hans í Kastljóssþætti í sjónvarpinu að kvöldi 15. janúar sl. bendir ekkert til þess að hann hafi rækt þessa skyldu, þ.e. að hafa leitað skýringa hjá nefndinni, hvers vegna þeim sem embættið hlaut hafi verið skipað jafn neðarlega og gert var.

Málefnaleg sjónarmið

Ráðherra hefur haldið því fram að gætt hafi verið málefnalegra sjónarmiða og undir það tekur Birgir Ármannsson. Í rökstuðningi ráðherra fyrir skipun dómararans „að fjölbreytt reynsla Þorsteins og þekking, ekki sízt vegna starfa hans sem aðstoðarmaður Björns Bjarna­sonar dóms- og kirkjumálaráðherra, um rúmlega 4 ára skeið geri hann hæfastan umsækjenda um embætti dómara".

Nú var megintilgangurinn með því að setja í lög nr. 92/1989 ákvæði um dómnefnd sem síðan voru sett í dómstólalög nr. 15/1998 að styrkja sjálfstæði dómstóla og auka traust almennings á því að dómarar séu óháðir handhöfum framkvæmdarvalds. Þetta var gert vegna dóms Mannréttindadómstóls Evrópu þar sem niðurstaðan var, að ekki væri nægilega greint milli dómsvalds og framkvæmdarvald í héraði. Auk þess átti nefndin að vera hvatning til lögfræðinga sem hygðu á dómsstörf að afla sér framhaldsmenntunar og leggja stund á fræðistörf á sviði lögfræði.

Skoðun ráðherra er sú, að starf pólitísks aðstoðarmanns dómsmálaráðherra eigi að vega þyngst við skipun í dómarastarf. Er það til þess fallið að styrkja sjálfstæði dómstóla og auka traust almennings á að dómarar séu óháðir framkvæmdarvaldinu?

Hér er álitaefnið hvert sé svigrúm ráðherra til að velja sér sjónarmið eftir því hvað hentar hverju sinni. Áherzla ráðherrans er nú á aðstoðarmennsku við dómsmálaráðherra, en hún hefur ekki alltaf dugað, í annan stað hefur lögmannsreynsla verið talin ráða úrslitum, en ekki kom hún nú að haldi og loks hefur prófritgerð í Evrópurétti verið talin mikilvægast innlegg, en nú skipta tvær meistaragráður í alþjóðalögum engu máli.

Ráðherraræði

Ítrekað heyrast raddir um að Alþingi hafi ekki þá stöðu gagnvart framkvæmdarvaldinu sem það eigi að hafa samkvæmt stjórnskipan landsins. Í stað þess að vera yfir framkvæmdarvaldinu sé það í reynd undir það gefið - jafnvel falla orð um að í reynd sé það lítið annað en afgreiðslustofnun fyrir ríkisstjórn. Og nú seilist framkvæmdarvaldið sífellt meira inn á svið dómsvaldsins. Með síðustu skipan hefur verið gengið lengra en áður eru fordæmi fyrir og málsvörn aldrei verið aumlegri; hún hefur einkennzt af illyrðum, útúrsnúningum og hálfsannindum, jafnvel beinum rang­færslum. Með því hafa þeir sjálfstæðismenn sem harðast hafa gengið fram í að verja gerðir ráðherra fellt á sig sterkan grun um að áhuginn sé meiri á eigin frama en á skap­legum stjórnarháttum og greið­asti vegurinn sé þá að hlýða valdboðum og verja vafasama gerninga.

---

fimmtudagur, 24. janúar 2008

Origins of Reasonable Doubt


"The Origins of Reasonable Doubt: Theological Roots of the Criminal Trial" by James Q. Whitman will be released on 31 January 2008, and is for sale on Amazon.

No doubt some insight can found in Whitman's paper by the same name that was published in Yale Law School Faculty Scholarship Series Year 2005 - it can be found via Google Scholar.

In the paper Whitman writes about the concept of reasonable doubt in criminal proceedings originating from the idea of "protecting the judges themselves" in order for them to "escape personal moral responsibility for entering judgment, and so escape the threat of “building themselves a mansion in Hell.”", instead of protecting the accused from wrongful convictions [p. 48].
"As Nörr showed, it is because for them, the problem was not a problem of proof at all, but a problem of conscience. Medieval jurists were worried about protecting the soul of the judge—of a judge who, as Peter the Chanter had worried, might too easily “make himself into a murderer.” For such a judge, it was of course criminal matters that presented the gravest threat; for it was criminal matters that involved blood. " [p. 49]

miðvikudagur, 23. janúar 2008

Ályktun dómarafélags Íslands vegna ráðningar Þorsteins

Dómarafélag Íslands sendi frá sér ályktun í dag, sem birtist á mbl.is:

Á síðustu áratugum hefur verið unnið að því að styrkja stöðu og sjálfstæði dómsvaldsins sem einn þátt ríkisvaldsins. Mikilvægum áfanga í því efni var náð með lögum um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði nr. 92/1989 og var sú braut fetuð áfram með lögum um dómstóla nr. 15/1998. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laga um dómstóla var lögð á það áhersla að við mótun löggjafar um dómstóla yrði að hafa í huga eftirlitshlutverk þeirra með hinum tveimur valdþáttum ríkisins. Meðal verkefna dómstóla væri að skera úr um embættistakmörk yfirvalda, dæma í refsimálum sem framkvæmdarvaldið höfðaði og um það hvort löggjafinn hefði haldið sig innan þess ramma sem honum væri settur með stjórnarskrá. Síðan segir svo: „Með framangreint í huga hefur þeirri stefnu verið fylgt við samningu frumvarpsins að tryggja verði í sem ríkustum mæli að dómstólarnir verði óháðir hinum tveimur þáttum ríkisvaldsins sem þeir hafa eftirlit með. Verði jafnframt að miða ákvæði frumvarpsins við það að ekki sé nægilegt að þetta sjálfstæði dómstólanna sé tryggt í raun, heldur að sjálfstæðið og trúverðugleikinn, sem því fylgir, sé öllum sýnilegur.“

Til þess að sjálfstæði dómstóla sé tryggt í raun skiptir verulegu máli hvernig staðið er að skipun í dómaraembætti. Hafa og ýmsar alþjóðlegar reglur verið settar til viðmiðunar til að stuðla að því að ákvarðanir um skipun dómara séu reistar á málefnalegum grundvelli. Evrópusamtök dómara hafa sett reglur um það að val á dómara skuli eingöngu byggjast á hlutlægum sjónarmiðum sem tryggi faglega hæfni hans. Í tilmælum ráðherranefndar Evrópuráðsins til aðildarríkja þess um sjálfstæði, skilvirkni og hlutverk dómara koma sömu sjónarmið fram. Alþjóðasamtök dómara hafa og ályktað um það að mikilvægt sé til þess að tryggja sjálfstæði dómstólanna að gætt sé algerlega hlutlægra viðmiðana við val á dómara. Á hinum Norðurlöndunum eru starfandi lögbundnar umsagnarnefndir og ber veitingavaldinu að taka tillit til álits þeirra við skipun í dómaraembætti.

Til þess að treysta sjálfstæði dómstóla að þessu leyti hér á landi var með lögum komið á fót sérstakri dómnefnd til að fjalla um hæfni umsækjenda um embætti héraðsdómara. Tilgangurinn með nefndinni var jafnframt sá að auka traust almennings á því að dómarar væru óháðir handhöfum framkvæmdarvaldsins.

Í samræmi við það sem hér hefur verið rakið er það álit stjórnar Dómarafélagsins að ráðherra beri við skipun í dómaraembætti að hafa hliðsjón af umsögn nefndarinnar þótt hann sé ekki bundinn af henni. Kjósi ráðherra á hinn bóginn að leggja umsögnina ekki til grundvallar, eins og gert var í því tilviki sem hér um ræðir, ber honum að færa fyrir því viðhlítandi rök. Stjórn Dómarafélags Íslands telur að það hafi ráðherra ekki gert.

Reykjavík, 23. janúar 2008

Í stjórn Dómarafélags Íslands
Eggert Óskarsson
Arngrímur Ísberg
Benedikt Bogason
Gréta Baldursdóttir
Hjördís Hákonardóttir

----

Til upprifjunar þá skipar félagið einn af þremur nefndarmönnum sem veita umsögn um umsækjendur um embætti héraðsdómara. Nú á Lögmannafélagið bara eftir að láta stjórnvöld heyra það.

mánudagur, 21. janúar 2008

Allir jafnir fyrir skattinum

Í þessari grein á skat.dk er því lýst hvernig Al-Capone aðferðinni er beitt, til þess að hafa hendur í hári hörðustu glæpamannanna, svokallaðra rockere.

miðvikudagur, 16. janúar 2008

Dómaraskipan: greinargerð, yfirlýsing, blaðagrein

Þessu er öllu gott að halda til haga:
1. GREINARGERÐ

dómnefndar skv. 12. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla.

Nokkur umræða hefur að undanförnu skapast vegna veitingar embættis héraðsdómara við Héraðsdóm Norðurlands eystra og Héraðsdóm Austurlands. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra vék sæti en Árni Mathiesen fjármálaráðherra var settur dómsmálaráðherra í hans stað til að skipa í embættið. Hann skipaði Þorstein Davíðsson héraðsdómara 20. desember 2007, þvert gegn rökstuddri umsögn dómnefndar skv. 12. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, sem taldi þrjá aðra umsækjendur mun hæfari. Þótt umsögnin bindi ekki hendur ráðherra eru engin fordæmi fyrir því að svo verulega hafi verið gengið á svig við álit dómnefndar, sem skipuð er eftir tilnefningum Hæstaréttar Íslands, Dómarafélags Íslands og Lögmannafélags Íslands og hefur það lögbundna hlutverk að láta dómsmálaráðherra í té skriflega og rökstudda umsögn um umsækjendur um embætti héraðsdómara. Dómnefndinni þykir rétt að koma á framfæri sjónarmiðum sínum af þessu óvenjulega tilefni. Þau snerta á engan hátt persónu þess einstaklings, sem að þessu sinni hlaut skipun í embætti héraðsdómara og dómnefndin óskar að sjálfsögðu farsældar í vandasömum störfum.

Þegar lög nr. 92/1989 um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði voru sett var það nýmæli tekið upp að sérstök dómnefnd skyldi fjalla um umsóknir um embætti héraðsdómara svo að dómsmálaráðherra væri betur í stakk búinn en áður til að skipa í dómaraembætti á grundvelli faglegra sjónarmiða eingöngu. Í athugasemdum með frumvarpi til aðskilnaðarlaga kom skýrt fram að þessi nýja tilhögun hefði þann megintilgang „að styrkja sjálfstæði dómstólanna og auka traust almennings á því að dómarar séu óháðir handhöfum framkvæmdarvaldsins.“ Þáverandi dómsmálaráðherra bætti um betur við umræður á Alþingi 15. desember 1988 og taldi nýmælið einnig til þess fallið „að auka traust almennings á því að dómarar séu valdir samkvæmt hæfni einvörðungu.“ Þetta ákvæði um dómnefnd var síðar tekið upp í núgildandi dómstólalög nr. 15/1998.

Um störf dómnefndarinnar gilda auk 12. gr. dómstólalaga reglur nr. 693/1999. Í 5. gr. þeirra er sú skylda lögð á nefndina að setja fram í skriflegri umsögn um umsækjendur annars vegar rökstutt álit á hæfni hvers umsækjanda og hins vegar rökstutt álit á því hvern eða hverja nefndin telji hæfasta og eftir atvikum láta koma fram samanburð og röðun á umsækjendum eftir hæfni. Í 7. gr. reglnanna kemur fram að umsögn nefndarinnar sé ekki bindandi við skipun í embætti héraðsdómara. Þá hefur nefndin í samræmi við heimild í 4. gr. reglnanna sett sér ákveðnar verklagsreglur við mat á umsóknum um embætti héraðsdómara, sem dómsmálaráðherra staðfesti 23. mars 2001. Þar eru tilgreind ýmis atriði, sem hafa ber til hliðsjónar við matið, svo sem starfsreynsla, fræðileg þekking, almenn og sérstök starfshæfni auk formlegra skilyrða. Dómnefnd hefur haft þann háttinn á um árabil, sem athugasemdir hafa aldrei verið gerðar við, að skipa umsækjendum í lok rökstuðnings í fjóra flokka: Ekki hæfur, hæfur, vel hæfur og mjög vel hæfur. Þá hefur nefndin ýmist raðað hinum hæfustu í töluröð eða talið tvo eða þrjá hæfasta án þess að ástæða hafi verið talin til að gera upp á milli þeirra. Faglegt mat dómnefndar um hæfni umsækjenda um dómaraembætti hlýtur öðru fremur að taka mið af hlutlægum mælikvörðum þótt orðstír umsækjenda í námi, störfum og fræðiiðkunum hafi
óhjákvæmilega áhrif á matið, sem er heildarmat á ferli umsækjenda.

Dómnefnd skipaði að þessu sinni fimm umsækjendum í tvo flokka af fjórum. Í efsta flokki voru þeir Guðmundur Kristjánsson hæstaréttarlögmaður, Halldór Björnsson aðstoðarmaður hæstaréttardómara og Pétur Dam Leifsson lektor og taldi dómnefnd þá mjög vel hæfa til að gegna dómaraembætti. Enginn umsækjenda var settur í flokkinn vel hæfur en hina tvo umsækjendurna setti dómnefnd í þriðja flokkinn og taldi þá hæfa til að gegna embætti héraðsdómara. Sá sem hlaut skipun, Þorsteinn Davíðsson, var annar þeirra.

Settur dómsmálaráðherra hefur að beiðni tveggja úr hópi þeirra þriggja umsækjenda, sem dómnefnd taldi standa mun framar hinum nýskipaða héraðsdómara, látið í té rökstuðning fyrir ákvörðun sinni. Það er lokaniðurstaða ráðherra „að fjölbreytt reynsla Þorsteins og þekking, ekki síst vegna starfa sem aðstoðarmaður dóms- og kirkjumálaráðherra um rúmlega fjögurra ára skeið, geri það að verkum að hann sé hæfastur umsækjenda um embætti héraðsdómara við Héraðsdóm Norðurlands eystra.“
Athygli vekur að engin tilraun er gerð til að rökstyðja hvers vegna þau atriði, sem ráðherra tilgreinir sérstaklega á ferli Þorsteins og dómnefnd hefur lagt mat á, eigi að vega þyngra í mati á hæfni umsækjenda en allt það, sem hinir umsækjendurnir hafa til brunns að bera. Þannig er til dæmis ekki minnst á 35 ára starfsferil eins umsækjanda, sem allur tengist dómstólum, bæði héraðsdómstólum og Hæstarétti, eða margra ára framhaldsnám annars umsækjanda í lögfræði við erlenda háskóla þar sem hann uppskar tvær meistaragráður. Þá verður að setja sérstakan fyrirvara við þá ályktun ráðherra, sem ekki verður dregin af umsóknargögnum, að Þorsteinn „eigi auðvelt með að setja fram skýran lögfræðilegan texta.“ Um þetta sagði í umsögn dómnefndar um Þorstein: „Umsækjandi hefur ekki lagt fram höfundarverk af einhverju tagi svo að meta megi tök hans á íslensku máli og rökhugsun við úrlausn vandasamra lögfræðilegra verkefna og hefur hann ekki bætt úr þessu frá fyrri umsókn sinni um dómaraembætti.“

Í þau sextán ár, sem dómnefnd hefur verið að verki vegna umsókna um störf héraðsdómara, hafa dómsmálaráðherrar fram að þessu iðulega virt rökstudda niðurstöðu nefndarinnar þótt þeir hafi ekki ævinlega valið þann umsækjanda, sem dómnefnd setti í fyrsta sæti, ef slíkri röðun var beitt, heldur valið annan úr hópi þeirra, sem taldir voru hæfastir. Við það er að sjálfsögðu ekkert að athuga enda er umsögn nefndarinnar ætlað að fela í sér faglega ráðgjöf án þess þó að binda hendur veitingarvaldsins. Eins og tilgangi með tilvist dómnefndar af þessu tagi er háttað er hins vegar óhjákvæmilegt að ætla að veitingarvaldinu séu einhver takmörk sett við val sitt, að minnsta kosti með hliðsjón af góðum og vönduðum stjórnsýsluháttum og raunar ekki síður sjálfstæði dómstólanna.
Dómnefndin telur að settur dómsmálaráðherra hafi við skipun í embætti héraðsdómara nú farið langt út fyrir slík mörk og tekið ómálefnalega ákvörðun, sem er einsdæmi frá því að sú tilhögun var tekin upp að sérstök nefnd legði rökstutt hæfnismat á umsækjendur. Með þessari ákvörðun hefur ráðherra ekki aðeins vegið að starfsheiðri og tilverugrundvelli dómnefndarinnar heldur einnig gengið í berhögg við það yfirlýsta markmið með stofnun hennar á sínum tíma að styrkja sjálfstæði dómstólanna og auka traust almennings á því að dómarar séu óháðir handhöfum framkvæmdarvaldsins og einvörðungu valdir samkvæmt hæfni. Þegar jafn óvönduð stjórnsýsla og nú er raunin er viðhöfð við veitingu dómaraembættis kemur vissulega til greina að dómnefndin leggi niður störf enda er ljóst að ráðherra metur verk hennar einskis. Í trausti þess að ákvörðun hins setta dómsmálaráðherra verði áfram einsdæmi við veitingu dómaraembætta mun dómnefndin hins vegar ekki velja þann kost, enda er starf hennar lögbundið og hefur jafnan verið metið að verðleikum með þessari einu undantekningu.

Lára V. Júlíusdóttir, sem er aðalmaður í dómnefndinni og vék sæti í þessu máli, er samþykk greinargerðinni.

9. janúar 2008.
Pétur Kr. Hafstein formaður
Eggert Óskarsson aðalmaður
Bjarni S. Ásgeirsson varamaður

---------------

2. YFIRLÝSING
Árna M. Mathiesen

Reykjavík 10. janúar 2008

Yfirlýsing Árna M. Mathiesen setts dómsmálaráðherra við skipun dómara í héraðsdóma Norðurlands eystra og Austurlands, vegna greinargerðar dómnefndar um hæfi umsækjenda.

Í tilefni greinargerðar sem dómnefnd, skv. 12. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, sendi frá sér í gær 9. janúar 2008 vegna skipunar á dómara í Héraðsdóm Norðurlands eystra og Héraðsdóm Austurlands er óhjákvæmilegt að koma að nokkrum athugasemdum.

- Nefndin fer rangt með þegar hún heldur því fram að það sé einsdæmi að ráðherra fari ekki að áliti nefndarinnar. Um það eru bæði nýleg og eldri dæmi. Einu gildir hversu mikill munur er á áliti nefndarinnar og niðurstöðu ráðherrans. Staðreyndin er sú að það er ekki einsdæmi að ekki sé farið að áliti nefndarinnar.
- Ráðherra ber í störfum sínum að taka sjálfstæða afstöðu til mála sem fyrir hann eru lögð og meta sjálfstætt álit hinna ýmsu nefnda sem vinna að undirbúningi mála fyrir hann. Það er ráðherrann sem hefur skipunarvaldið og þar með ábyrgðina og hvorugu getur hann afsalað sér. Honum ber að fara eftir eigin sannfæringu í sérhverju máli en ekki sannfæringu annarra. Í þessu tilfelli telur ráðherrann að gallar hafi verið á umsögn dómnefndar sem hafi verið ógagnsæ, lítt rökstudd og innra ósamræmis gætt við mat á reynslu sem hin ýmsu störf gefa. Dómnefndin hefur auðvitað þann lýðræðislega rétt að hafa skoðun á niðurstöðu og rökstuðningi ráðherrans en
ráðherranum ber beinlínis skylda til þess að hafa skoðun á umsögn nefndarinnar og fara eftir eigin mati við skipun í embættið ef hann greinir á við nefndina.
- Dómnefndin starfar eftir reglum sem byggðar eru á dómstólalögum frá 1998.
Greinilegt er að nefndin hefur misskilið hlutverk sitt og telur sig hafa vald sem hún hefur ekki því í 7. gr. reglnanna segir : „Umsögn nefndarinnar er ekki bindandi við skipun í embætti héraðsdómara“.

--------------------

3. Blaðagrein hæstaréttarlögmanns -Vísir, 16. jan. 2008 06:00

Ólögleg embættisveiting

mynd
Ástráður Haraldsson

Það er sosum ekki nýtt að deilt sé um það á Íslandi hvernig staðið er að því að velja á milli umsækjenda um opinber embætti. Við höfum búið við það lengi að þurfa að kyngja ýmsu misjöfnu frá stjórnmálamönnum okkar hvað það varðar. Nýleg skipan héraðsdómara fyrir norðan og austan er hins vegar dæmi sem erfitt er að bera saman við þær deilur af þessum toga sem við eigum að venjast.

Þeir stjórnmálamenn sem tala í sömu andrá um skipanina í héraðsdómaraembættið og þær aðrar umdeildu embættisveitingar sem frést hefur af síðustu vikur eru á villigötum. Þau dæmi eru ekki sambærileg. Þeim sem embætti veitir er að lögum ætlað nokkurt svigrúm til mats á hæfni umsækjenda. Ráðherra verður að velja úr hópi umsækjenda þann sem best er fallinn til að gegna embættinu. Það mat getur verið flókið og oltið á ýmsu eftir atvikum. Slíkt svigrúm, sem vissulega er til staðar, dugar hins vegar á engan hátt til að brúa það bil sem er milli verðleika þess sem skipaður var í héraðsdómaraembættið og hinna sem samkvæmt hlutlægu og málefnalegu mati voru betur hæfir til að taka við embættinu.

Settur dómsmálaráðherra hefur lagt á það áherslu að það sé hann sem hafi haft valdið til að skipa í embættið en ekki dómnefndin sem mat hæfni umsækjendanna. Þetta er bæði rétt og ekki rétt. Vissulega var það í höndum setts dómsmálaráðherra að skipa í embættið. Vandinn er hins vegar sá að það mátti hann ekki gera að eigin geðþótta. Niðurstaða ráðherra fer út fyrir þau mörk sem á grundvelli málefnalegrar og hlutlægrar stjórnsýslu verður að draga um valdsvið hans og mögulegar niðurstöður. Hæfasta umsækjandanum bar embættið.

Niðurstaða ráðherrans er ekki bara óheppileg. Ekki bara röng og ómálefnaleg. Hún er ólögmæt. Stjórnvaldsákvörðun sem byggð er á ómálefnalegum sjónarmiðum er ólögmæt. Ráðherrann hafði ekki vald til að taka slíka ákvörðun. Ákvörðun setts dómsmálaráðherra er að líkindum ógildanleg. Verulegar líkur eru til þess að dómstólar myndu komast að þeirri niðurstöðu ef málið bæri að með þeim hætti að slíkt yrði undir þá borið.

Þá stæðum við í þeim sporum að með ógildanlegri ákvörðun hefði maður verið skipaður í embætti sem samkvæmt stjórnarskrá er ekki hægt að svipta hann nema með dómi. Það væri vægast sagt óheppileg staða. Það að bera saman deilur um mismunandi mat á hæfni umsækjenda um tímabundin embætti forstöðumanna ríkisstofnana og skipan í dómara­embætti er rangt og villandi. Staða og hlutverk dómara samkvæmt stjórnskipan okkar og nauðsyn þess að þeir standi sjálfstætt gagnvart framkvæmdavaldinu krefst þess að skipan þeirra sé enn betur hafin yfir vafa en aðrar embættisveitingar. Þar er um að tefla grundvallaratriði sem varða réttaröryggi og sjálft réttarríkið.

Það andrúmsloft pólitískrar valdbeitingar sem hér hefur skapast er þrúgandi og óþolandi. Allir sem vit hafa til, forðast í lengstu lög að tjá sig af ótta við að þurfa að gjalda þess á eigin skinni. Það er sérstaklega ömurlegt að hugsa til þess að félag okkar lögmanna skuli ekki sjá neina ástæðu til að koma fram til varnar dómskerfinu og réttarríkinu þegar að því er sótt einsog nú er gert. Tilraunir sjálfstæðismanna í ríkisstjórninni til að snúa málinu upp í flokkspólitík snúast um það eitt að reyna að smala sínu fólki oní skotgrafirnar sjálfum sér til varnar. Þeir vita sem er að í þeirra eigin ranni er varla nokkur maður sem ekki sér að hér hefur verið gengið fram gegn betri vitund og réttur brotinn á þjóðinni.

þriðjudagur, 15. janúar 2008

Bara hæfur

Gjör rangt - þol órétt?

Morgunblaðið hefur undanfarið gengið fram fyrir skjöldu til að réttlæta skipun dómara við Héraðsdóm Norðurlands eystra og Héraðsdóm Austurlands sem dómnefnd skv. 12. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla hafði talið standa verulega að baki þremur öðrum umsækjendum. Í leiðara Morgunblaðsins 10. janúar sl. er þeim ummælum dómnefndarinnar hafnað, að tilvist nefndarinnar setji veitingarvaldinu einhver takmörk. Þetta sé einfaldlega rangt, enda komi það hvergi fram í neinum lagatexta, nefndin sé að draga til sín vald sem hún hafi ekki.

Nærtækast væri að líta á þessi orð sem merkingarlaust rugl, en ef taka á mark á þeim eru lög ekki annað en tæki valds sem lýtur engum takmörkunum. Hér skín í taumlausa vildarhyggju þar sem einungis er áskilið að lög séu sett með formlega réttum hætti og þeim beri að framfylgja með valdi hvert svo sem efni þeirra er. Valdboðið er sett í öndvegi; annað látið víkja. Með þetta að leiðarljósi er alræði og geðþótta opnuð leið og eru nærtækust dæmin frá Þýzkalandi eftir 1930.

[...]

Með því að setja ákvæði um dómnefnd til að meta sérstaklega hæfni umsækjenda um héraðsdómaraembætti umfram hin venjulegu lágmarksskilyrði um aldur, menntun, starfsreynslu, óflekkað mannorð o. s. frv. hefur löggjafinn leitazt við að tryggja sjálfstæði dómsvaldsins og með sérstöku óháðu hæfnismati reist valdi ráðherra skorður þótt hún bindi það ekki. Svigrúm ráðherra merkir hins vegar ekki að hann geti hundsað álit dómnefndar gersamlega eins og settur dómsmálaráðherra hefur gert, enda missir ákvæðið þá marks og verður dauður bókstafur.

[...]

Varaformaður flokksins hefur lýst eindregnum stuðningi við geðþóttaákvörðun setts dómsmálaráðherra. Röksemdirnar láta reyndar á sér standa því að hún kýs að ræða ætterni þess umsækjanda sem skipaður var gegn hæfnismati dómnefndarinnar. Þegar gengið er jafn gróflega í berhögg við álit nefndarinnar og naumast liggur annað fyrir frá settum dómsmálaráðherra en orðafar sem hæfir götustrákum er eðlilegt að menn leiti skýringa á háttsemi ráðherrans jafnt sennilegum sem ósennilegum. Varaformaðurinn er rökþrota og reynir að drepa máli á dreif í því skyni að vekja samúð með hinum nýskipaða dómara. Kjarni málsins snýst ekki um persónu hans, þótt reynt sé að beina umræðunni þangað, heldur röksemdir dómnefndarinnar og lagaskilning í anda réttarríkisins.

[...]

(Útdráttur úr grein eftir Sigurð Líndal lagaprófessor í Fréttablaðinu, 15. janúar 2007.)

myndin er úr 24stundum frá 22. desember 2007 - meira í gríni en alvöru. Í því blaði birtist einnig harðorð grein eftir Illuga Jökulsson 12. janúar 2008, undir fyrirsögninni "Var það þess virði, Árni?"